Minningagrein um Sigrúnu Straumland fædd 1909

Hún Sigrún var yngst af systkinunum á Litlu-Heiði í Mýrdal og móðir mín var elst. Það er til mynd af afa og ömmu sem tekin er fyrir ofan bæinn og sitja þau þar í brekkunni með börnin sín níu í kringum sig. Þetta er falleg mynd. Strákarnir þrír eru allir með blóm í jakkaboðungunum. Stelpurnar hafa eflaust skreytt þá með sumarblómum svo þeir kæmu vel út á ljósmynd. Sigrún, yndið þeirra allra, er líklega níu ára gömul, falleg lítil stúlka sem hjúfrar sig upp að elstu systur sinni, er með slaufu í hárinu og í snyrtilegum sparikjól. Þetta er systirin sem á mín kveðjuorð í dag. Hún var mér svo dýrmæt hún Sigrún, ekki aðeins fyrir það hvað hún var skemmtileg og orðheppin, heldur líka fyrir það hvað hlý hún var og umvefjandi. Ég, sem hafði misst móður mína ung, sótti til hennar í fjársjóð minninganna, til að fá sem skírasta mynd af mömmu í gegnum augu systur hennar. „Hún var langskörpust af okkur systkinunum hún Silla, og ljóðelsk var hún. Hún fór með utanbókar öll ljóðin hans Steingríms Thorsteinssonar. Og ef eitthvað bjátaði á hjá okkur systkinunum, þá var hún vís með að vitna í Steingrím okkur til huggunar. Hún vitnaði í Steingrím þegar sálin mín var svo brotin, eftir missi Andrésar eiginmanns míns”, sagði Sigrún. „Við fengum svo fá ár í samvistum okkar hér á jörðunni, þetta er ekki réttlátt“, kveinaði yngsta systirin, og hjúfraði sig í fang þeirrar elstu. Hún heyrði systur sína segja líkt og gegnum móðu sorgarinnar: “Á sorgarhafs botni sannleiksperlan skín, þann sjóinn máttu kafa, ef hún skal verða þín.“ Sú yngri snökti: „Ég vil enga sannleiksperlu, ég vil bara hann, og höndina hans.“ Eldri systirin strauk hárið hennar og fór að minna hana á hamingjudagana sem enginn gæti tekið frá henni. Sigrún hafði komið til hennar nokkrum árum áður og trúað henni fyrir ást sinni á Andrési Straumland. Hann var þó nokkuð eldri en hún, fráskilinn, sem þótti mikill ljóður á ráði fólks í þá daga og það versta var að hann var kommúnisti. “Og ég veit alveg hvað þú ætlar að segja núna, rétt eins og allir hinir - - - “, „Þú sem allt veist Sigrún mín“, sagði þá eldri systirin, „hlýtur þá að vita að mér finnst að ef þú elskar þennan mann, þá eigir þú að giftast honum.“ Og svo var auðvitað vitnað í Steingrím: „Ást er raust sem bergmáls jafnan biður.“ “Og það þarf ekkert að orðlengja það. Við Andrés giftum okkur í stofunni á Laugavegi tvö á aðfangadag og það voru dýrlegustu jól sem ég hef lifað”, sagði hún frænka mín og tók um hönd mína. Og pabbi þinn og mamma höfðu lag á því að bjóða okkur til sín í mat og greiða okkur nýgiftu hjónunum leiðina án þess að okkur þyrfti á nokkurn hátt að svíða fátækt okkar.

Ég frétti annarsstaðar frá að þegar móðir mín lá fyrir dauðanum, hafi systurnar frá Litlu-Heiði, sem flestar voru hjúkrunarmenntaðar, skipst á að vaka yfir systur sinni á banasænginni. Sigrún,  sem átti nýfædda litla dóttur, hjalaði við sína deyjandi systur um dótturina dýrlegu. Svo mamma hafði átt að spyrja hana hvort hún ætlaði ekki að láta skíra barnið. „Nei, það geri ég ekki“, sagði yngri systirin. „Við Andrés erum kommúnistar og viljum ekkert með kirkju og presta gera.“ Þá á mamma að hafa tekið um hönd systur sinnar og sagt: „Þú neitar mér ekki um þá síðustu bón mína að láta skíra litlu stúlkuna þína.“ Og töffarinn skemmtilegi hún Sigrún frænka mín  lét skíra einkadóttur sína yfir kistu móður minnar og gaf þeim dýrgrip nafn elstu systur sinnar og móður. Og hún Sigurlaug Guðrún sem nú kveður heittelskaða móður sína, á alla mína virðingu og ást, því enga hef ég séð reynast sinni móður jafn vel sem hún. Fegurra samband móður og dóttur hef ég ekki séð. Mig langar að fara með henni Sillu Gunnu í Heiðardalinn fagra, þar sem systkinin níu voru alin upp, og rifja með henni upp allar sögurnar sem þau sögðu okkur úr dalnum. Þegar þau hópuðust fyrir utan bæinn og horfðu upp á Fall en svo nefnist hálsinn sem lokar dalnum til vesturs og sést þar fyrst til mannaferða í dalinn. Þar sáu þau Guðrúnu móður sína koma úr sínum ljósmóðurferðum og reiddi hún þá oft lítinn böggul fyrir framan sig. Var það þá næst yngsta barn sængurkonunnar sem hún hafði vitjað. Hún vildi þálétta undir á fátæku heimili og gefa unganum litla nýmeti úr vatninu svo hann fengi hraustlegan roða í kinnarnar. Það er ég viss um að á Himnum þar sem kærleikurinn býr er eins umhorfs og í fegursta dal á Íslandi. Og þar fær hún Sigrún að ríða niður Fallið á Lottu hans afa og í móttökunefndinni fyrir framan bæinn verða systkinin átta, foreldrar og Helga, vinnukonan á Heiði sem leyfði yngsta barninu að kúra fyrir framan sig í rúminu og kenndi henni að fara með bænirnar sínar.

Guðrún Ásmundsdóttir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband